Tónleikar í Langholtskirkju

Tónleikar í Langholtskirkju

Kór Langholtskirkju heldur tónleika 30. apríl kl. 20:00 undir stjórn Garðars Cortes, skólastjóra Söngskólans í Reykjavík. Flutt verða tvö meistaraverk eftir Giacomo Puccini; Messa di Gloria og Requiem. Kórinn fær til liðs við sig einsöngvarana Gissur Pál Gissurarson tenór og Odd Arnþór Jónsson baritón, sem báðir stunduðu nám hér við skólann. Einnig má taka fram að margir meðlimir kórsins stunda nám eða hafa lokið námi við Söngskólinn í Reykjavík. Til að mynda syngja níu nemendur í kórnum, sem tóku þátt í uppsetningu Nemendaóperunnar á Töfraflautunni eftir Mozart núna í vetur.
Starfsemin í Langholtskirkju er dýrmætur vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk að spreyta sig, t.d. heldur Listafélag Langholtskirkju tónleika Ungra einsöngvara á hverju ári og fá þá söngvarar úr röðum kórsins tækifæri til að koma fram.

Messa di Gloria (útgáfuár 1880) er einstaklega fallegt verk sem heyrist alltof sjaldan hér á landi. Messan markar mikilvæg skil í lífi og starfi óperuskáldsins Giacomo Puccini, þar sem hann hafði tekið ákvörðum um að helga sig alfarið óperutónlistinni í stað kirkjuverka. Aðaláhrifavaldur ákvörðunar var óperan Aida eftir Giuseppe Verdi sem heltók huga og hjarta Puccini. Margir hafa haldið því fram að Puccini sé að kveðja kirkjutónlistina með þessu verki.

Útgáfufyrirtækið Ricordi bað Puccini um að semja Sálumessu (Requiem) til að heiðra minningu Verdi. Hann varð við þeirri beiðni og Requiem (útgáfuár 1904) var frumflutt á fjögra ára dánarafmæli Verdi. Þetta er í fyrsta skiptið sem verkið er flutt hér á landi með harmóníum og víólu.

Gissur Páll er af mörgum kunnur í íslensku tónlistarlífi, en hann hefur sungið sem einsöngvari við ýmis tilefni. Hann hóf nám sitt við Söngskólann árið 1997 hjá Magnúsi Jónssyni. Árið 2001 hélt hann til Ítalíu þar sem hann stundaði söngnám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna.
Eftir námið hefur hann komið fram m.a. á Ítalíu og í Japan. Hann hefur unnið til verðlauna í söngkeppnum, s.s. í söngkeppninni Flaviano Labò og í söngkeppni í Brescia. Vorið 2012 hlaut Gissur Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir túlkun sína á Rodolfo í La Boheme hjá Íslensku óperunni.

Oddur Arnþór hefur einnig haslað sér völl í íslensku tónlistarlífi, þótt hann sé að mestu búsettur í Austurríki. Hér við Söngskólann í Reykjavík stundaði hann nám hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Alex Ashworth. Í beinu framhaldi fór hann í Universität Mozarteum í Salzburg, þaðan sem hann lauk meistaragráðu í söng árið 2014. Oddur er framúrskarandi söngvari en hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum keppnum. Sem dæmi má nefna að hann sigraði Brahms-keppnina í Pörtschach í Austurríki; varð þriðji í Schubert-keppninni í Dortmund og þriðji í Musica Sacra-keppninni í Róm. Hann fékk Schubert-verðlaunin og verðlaun fyrir besta ljóða- og óratóríuflytjandann í Francesc Viñas-keppninni í Barcelona.

Sjáumst í Langholtskirkju á sunnudaginn 30. apríl kl. 20:00.
Miðasala: https://tix.is/is/event/3980/kor-langholtskirkju-flytur-puccini/

Comments are closed.