Browsed by
Flokkur: Uncategorized

Úrslit svæðistónleika Nótunnar 2017

Úrslit svæðistónleika Nótunnar 2017

Söngskólinn í Reykjavík sendi frá sér tvö atriði á svæðistónleika Nótunnar 2017, sem fram fór um helgina í Grafarvogskirkju. Á svæðistónleikunum voru veittar viðurkenningar og nótuverðlaun til þeirra atriða sem valin voru til að taka þátt í Lokahátíð Nótunnar.
Bæði atriðin sem tóku þátt fyrir hönd Söngskólans í Reykjavík komust áfram!


Einar Dagur Jónsson tók þátt í flokki einleiks-/einsöngsatriða. Hann söng aríu Taminos úr Töfraflautunni eftir W.A. Mozart, Dies Bildnis ist bezaubernd schön. Antonia Hevesi lék undir með Einari Degi sem er nemandi Egils Árna Pálssonar söngkennara. Fyrr á árinu tók Einar Dagur þátt í söngkeppni Vox Domini og hlaut þar verðlaunasæti á framhaldsstigi.


Atriðið á okkar vegum í samleiks-/samsöngsflokki var í höndum Nemendaóperunnar. Þau sungu Quintett úr Töfraflautunni eftir W.A. Mozart, Hm hm hm, undir handleiðslu Sibylle Köll og Hrannar Þráinsdóttur. Quintettinn skipuðu: Salný Vala Óskarsdóttir, Jara Hilmarsdóttir, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, Birgir Stefánsson og Einar Dagur Jónsson. Salný Vala og Jara eru nemendur Hörpu Harðardóttur, Hanna Ágústa er nemandi Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur, Birgir er nemandi Bergþórs Pálssonar og Einar Dagur er, eins og fyrr hefur komið fram, nemandi Egils Árna Pálssonar.

Við viljum óska þessum glæsilega hópi söngvara, söngkennara, píanóleikara og leikstjóra innilega til hamingju með árangurinn og við hlökkum til að sjá þau koma fram á Lokahátíð Nótunnar í Eldborgarsal Hörpu, sunnudaginn 2. Apríl 2017.

Marta Kristín Friðriksdóttir

Marta Kristín Friðriksdóttir

Árið 2017 hefur verið mjög viðburðarríkt hjá söngkonunni Mörtu Kristínu Friðriksdóttur, nemenda við Söngskólann í Reykjavík. Snemma árs vann Marta söngkeppnina Vox Domini, á vegum FÍS (Félag Íslenskra söngkennara) og fékk nafnbótina Rödd ársins 2017!
Samhliða því að syngja hlutverk Paminu í Töfraflautunni, eitt aðalhlutverk óperunnar, söng Marta sig inn í virtan tónlistarháskóla í Vín: Universität für musik und darstellende kunst Wien. Hún heillaði dómnefndina þar við skólann eins og henni einni er lagið.

Marta hóf nám við Söngskólann í Reykjavík árið 2012 og hefur síðan þá lært hjá Signýju Sæmundsdóttur og Þóru Fríðu Sæmundsdóttur. Hún kom hingað með gott veganesti frá Margréti Pálma, Hönnu Björk Guðjónsdóttur og Ingu Backman. Í lok síðasta skólaárs lauk Marta 8. stigs söngprófi með hæstu einkunn eða 9,6. Á bak við velgengni sem þessa liggur mikil vinna, en Marta hefur verið dugleg að sækja masterclassa hérlendis sem og erlendis.

Tónlistarháskólinn í Vín hefst 2. Október 2017. Þar við skólann eru nú þegar nokkrir aðrir nemendur frá Söngskólanum í Reykjavík: Kristín Sveinsdóttir, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Gyrðir Viktorsson, Davíð Ólafsson og Unnsteinn Árnason. Við vonum að þau taki vel á móti líflegu og skemmtilegu Mörtunni okkar og hjálpi henni að fóta sig á nýjum stað.

Aukasýning Nemendaóperunnar

Aukasýning Nemendaóperunnar

Vegna fjölda áskoranna mun Nemendaópera Söngskólans setja upp aukasýningu af Töfraflautunni. Færri komust að en vildu á síðustu uppfærslu, þannig að það er ráð að næla sér í miða sem fyrst!

Hægt er að nálgast miða hér hjá okkur í Söngskólann eða í Hörpu.
Nánari upplýsingar í síma: 552-7366

Töfra-mars-1