Um Söngskólann

Um Söngskólann

Hlutverk Söngskólans í Reykjavík er…

Að veita kennslu í söng og staðgóða almenna tónlistarmenntun.
Að sérmennta og útskrifa einsöngvara og söngkennara.

Saga Söngskólans í Reykjavík

Garðar Cortes stofnaði Söngskólann í Reykjavík haustið1973 og rak hann sem einkastofnun til ársins 1978 er kennarar, nemendur og velunnarar skólans stofnuðu, undir forystu Garðars, Styrktarfélag Söngskólans í Reykjavík. Skólinn starfaði í eigin húsnæði að Hverfisgötu 45 frá 1978 ásamt viðbótarhúsnæði sem skólinn keypti haustið 1997. Haustið 2002 fluttist öll starfsemi Söngskólans í Reykjavík í glæsilegt og rúmgott húsnæði að Snorrabraut 54 og þar er einnig tónleikasalurinn Snorrabúð.

Skólinn starfar samkvæmt lögum um tónlistarskóla og nýtur styrkja sem nemur launum kennara samkvæmt þjónustusamningi við Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög í gegn um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Skólagjöld nemenda standa undir öðrum rekstrarkostnaði. Við skólann starfa 32 kennarar með rúmlega 20 stöðugildi og er nemendafjöldi hvert skólaár 180-200 nemendur. Skólastjóri er Garðar Cortes.

Á 40 starfsárum skólans hafa á fjórða þúsund nemendur stundað nám við skólann um lengri eða skemmri tíma. 334 hafa lokið framhaldsprófi/lokaprófi úr almennri deild. Skólinn hefur útskrifað samtals 188 nemendur með háskólagráður í einsöng og/eða söngkennslu; 130 með ABRSMdip / Burtfararpróf / Certificate of higher education
og 58 með LRSM / Licentiate of the Royal Schools of Music / Bachelor degree with honours.NemendaóperaSöngskólans setur árlega upp sýningar og blómlegt tónleikahald er innan skólans.

Skólinn hefur frá upphafi haft samstarf við Konunglegu tónlistarskólana í Bretlandi “The Associated Board of the Royal Schools of Music”. Öll lokapróf frá skólanum hafa verið tekin í samvinnu við ABRSM, prófdómarar frá þeim dæmt prófin og nemendur hlotið prófskírteini sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar, auk þess sem nemendum sem skara fram úr er boðið að sækja um alþjóðlega styrki ABRSM, til náms við Tónlistarháskóla sambandsins í Bretlandi.

Stjórn Styrktarfélags Söngskólans og skólanefnd er kosin á aðalfundi Styrktarfélagsins haust hvert.  Hún er nú þannig skipuð.

Aðalstjórn
Garðar Cortes
Ólöf Kolbrún Harðardóttir
Þorvaldur Gylfason

Varastjórn
Ásrún Davíðsdóttir
Kolbrún Sæmundsdóttir
Magnús Skúlason